„Ég held að sé mjög ólíklegt að við tökum upp annan gjaldmiðil á tímum þessarar ríkisstjórnar. Það er augljóst að það verður ekki breytt um gjaldmiðil nema það eigi sér aðdraganda og aðdragandinn felst meðal annars í því að menn tali um málin.“

Þetta segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í Fréttablaðinu í dag. Þar bendir hann einnig á að í ríkisstjórnarsáttmálanum standi að flokkarnir vilji finna lausn sem dragi úr sveiflum á gengi krónunnar.

Á fimmtudaginn birti fjármálaráðherra grein í Fréttablaðinu þar sem hann sagði fjármálaráðherra geta hafnað krónunni og lagt til „þann kost sem er farsælastur fyrir Íslendinga.“ Óhætt er að segja að grein Benedikts hafi vakið athygli, en í greininni ítrekaði fjármálaráðherra afstöðu Viðreisnar í gjaldmiðlamálum, sem felst í því að Ísland hafni krónunni og taki upp fastgengisstefnu með myntráði.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að málflutningur fjármálaráðherra væri einungis skoðun Benedikts og Viðreisnar og að hann lýsi ekki stefnu ríkisstjórnarinnar. Ekki standi til að taka upp annan gjaldmiðil í stað krónunnar. Þvert á móti sé stjórnarsamstarfið byggt á því að íslenska krónan verði notuð hér áfram. Sagði hann sterkt gengi krónunnar endurspegla betra efnahagsástand í landinu.

Þriggja manna nefnd skipuð af forsætisráðherra er nú að störfum um endurskoðun á peningastefnu og gjaldmiðlamálum Íslands. Í þeirri vinnu er gengið út frá því að krónan verði áfram gjaldmiðill Íslands og skoðar nefndin því leiðir til að styrkja umgjörð krónunnar og draga úr sveiflum á gengi hennar en ekki leiðir til að taka upp aðra gjaldmiðla.