Mikið hefur verið lagt í uppbyggingu ferðaþjónustu á Siglufirði. Auk þess að opna nýtt hótel er nú verið að byggja upp skíðasvæðið í Skarðsdal og gera nýjan golfvöll. Róbert Guðfinnsson segir að sjálfseignafélagið Leyningsás standi að uppbyggingunni.

„Bærinn útvegar land fyrir golfvöllinn og auðvitað skíðasvæðið en við veittum 300 milljónir í verkefnin tvö. Við ætlum okkur að gera þetta vel. Golfvöllurinn er hannaður af Edwin Roald og verður á útivistarsvæðinu í Hólsdal. Þetta verður mjög flottur 9 holu völlur, sem mun teygja sig inn í skóg og ein brautin verður að hluta á eyju úti í Hólsá. Við völlinn verður reistur golfskáli.“

Róbert segir að á næstu misserum verði því hægt að bjóða upp á mjög fína afþreyingu fyrir ferðamenn á Siglufirði. Auk skíðasvæðisins og nýs golfvallar séu auðvitað fyrir í bænum Síldarminjasafnið og Þjóðlagasetrið, sem séu vinsæl meðal ferðamanna. Þá sé einnig í auknum mæli verið að bjóða upp á sjóstangveiði í firðinum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .