Á síðasta ári bættist einn hluthafi í hópinn hjá Baggalút ehf. og eru þeir nú orðnir sjö talsins, hver með 14% eignarhlut. Nýi hluthafinn er Guðmundur Kristinn Jónsson, sem einnig hefur getið sér gott orð sem gítarleikari í hljómsveitinni Hjálmum. Sú breyting hefur einnig orðið að í stað þess að Bragi Valdimar Skúlason sé eini stjórnarmaðurinn í félaginu sitja nú hluthafarnir sjö allir í stjórn félagsins.

Í fyrra skilaði Baggalútur 5,2 milljóna króna hagnaði, samanborið við ríflega 400.000 króna tap árið 2011. Reikningurinn er samandreginn, þannig að ekki er hægt að sjá veltu félagsins, en rekstrarhagnaður nam í fyrra 6,1 milljón króna, samanborið við 1,2 milljóna króna rekstrartap árið á undan. Eignir félagsins námu í árslok 2012 26,3 milljónum króna og þar af nam handbært fé og markaðsverðbréf 16,2 milljónum króna. Skuldir námu 10,5 milljónum og eigið fé því um 15,7 milljónir króna.