Kjarninn miðlar ehf., félag sem á og rekur Kjarnann, hefur lokið við sölu á hlutafé sem félagið átti sjálft og hafa Guðmundur Hafsteinsson og Edda Hafsteinsdóttir bæst við hluthafahópinn. Auk þess hefur hlutafé verið aukið lítillega. Þetta kemur fram í tilkynningu Kjarnans sem birtist fyrir stundu.

Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans, verður enn stærsti hluthafi félagsins að þessum breytingum loknum.

Á meðal helstu eigenda Kjarnans að lokinni hlutafjársölu og aukningu eru:

  • HG80 ehf. (í eigu Hjálmars Gíslasonar) 16,55%
  • Miðeind ehf. (í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar) 15,98%
  • Magnús Halldórsson 13,79%
  • Þórður Snær Júlíusson 12,20%
  • Birna Anna Björnsdóttir 9,39%
  • Hjalti Harðarson 9,25%
  • Milo ehf. (Í eigu Guðmundar Hafsteinssonar og Eddu Hafsteinsdóttur), 5,69%

Kjarninn tilkynnir jafnframt stofnun Kjarnasjóðsins, fyrsta íslenska rannsóknarblaðamennskusjóðinn sem ætlað er að styrkja stór og metnaðarfull verkefni á sviði rannsóknarblaðamennsku á Íslandi og um leið efla hana til muna. Með sjóðnum er ætlunin að gefa blaðamönnum tækifæri til að helga sig alfarið stórum og flóknum verkefnum í dágóðan tíma. Sjóðurinn mun úthluta allt að fimm milljónum króna árlega og getur hver einstakur styrkur numið allt að 500 þúsund krónum.