Fjárfestingasjóðurinn sem keypti stóran hlut í Marel á dögunum var meðal þeirra sjóða sem eignuðust kröfur á íslensku bankana í kjölfar bankahrunsins. Skúffufélag í eigu MSD Partners L.P. átti kröfur upp á rúma 22 milljarða króna á hendur Glitni þegar slitum bankans lauk með nauðasamningum í árslok 2015. Einungis mánuði fyrr hafði sjóðurinn átt kröfur upp á 28 milljarða, en í dag hefur hann slitið sig algerlega frá Glitni.

Eyrir Invest, stærsti hluthafi Marel, greindi frá því í fréttatilkynningu fyrr í vikunni að fé­ lagið hefði selt 15 milljónir hluta í Marel til MSD Partners fyrir 285 krónur á hlut, eða samtals 4.275 milljónir króna. Með viðskiptunum varð MSD Partners sjöundi stærsti hluthafinn í Marel. MSD Partners L.P. var stofnað árið 2009 af forsvarsmönnum MSD Capital L.P. til að gera völdum fjárfestum kleift að taka þátt í fjárfestingum á vegum þess síðarnefnda. MSD Capital L.P hafði verið stofnað árið 1998 í þeim eina tilgangi að stýra eignum Michaels Saul Dell, stofnanda tölvurisans Dell. Þó svo að MSD Partners sé óbeint í eigu Dell kemur að minnsta kosti hluti af fjárfestingu sjóðsins í Marel frá öðrum fjárfestum.

Í hópi með „hrægömmum“

Við fall íslensku bankanna haustið 2008 myndaðist tækifæri fyrir sérstaka tegund fjárfesta til að kaupa skuldir þeirra af lánardrottnum á miklum afslætti. Margir vogunarsjóðir sem sérhæfa sig í gjaldföllnum skuldum, gjarna nefndir „hrægammasjóðir“ í íslenskri umræðu, urðu fljótlega stærstu kröfuhafar bankanna. Virkur markaður myndaðist með kröfurnar þar sem vogunarsjóðir keyptu þær og seldu sín á milli og í ársbyrjun 2012 hafði MSD Credit Opportunity Master Fund L.P., skúffufélag í eigu MSD Partners, eignast kröfur á Glitni upp á 4,8 milljarða króna að nafnvirði. Fjórum mánuðum síðar hafði MSD bætt við sig verulegum kröfum og námu þær samtals 11,7 milljörðum króna. Sjóðurinn bætti aftur við sig seinni hluta ársins 2013 og átti í október kröfur upp á 24,4 milljarða sem meðal annars voru keyptar af Citigroup bankanum og vogunarsjóðnum Centerbridge Partners.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið með því að smella á Tölublöð .