Bandaríska tæknifyrirtækið Apple mun kynna nýjar vörur þann 12. september samkvæmt heimildum Wall Street Jorunal . Talsverðar vangaveltur hafa verið uppi um að tafir yrðu á nýjum iPhone vegna skorts á íhlutum og vandræðum í framleiðslu eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Ef marka má frétt Wall Street Journal verður hin svokallaða „keynote" kynning á nýjum iPhone einungis 5 dögum seinna en í fyrra. Það verður þó að koma í ljós hvort Apple takist að hefja söli á nýjum síma 10 dögum eftir kynningu eins og venjan hefur verið undanfarin ár.

Búist er við því að Apple kynni þrjár nýjar útgáfur af iPhone símanum auk nýrrar útgáfu af Apple Watch smartúrinu. Er gert ráð fyrir því að Apple kynni endurbætta útgáfu af iPhone 7 og iPhone 7 Plus sem munu að öllum líkindum fá bera nafnið iPhone 7s og iPhone 7s Plus.

Þá verður einnig kynnt 10 ára afmælisútgáfa af iPhone sem mun verða dýrari en fyrri símar. Er talið að skjár afmælisútgáfunar muni þekja allan síman auk þess sem síminn mun innihalda andlitsgreiningu (e. face recognition) sem valkost í stað hefðbundinna lykilorða eða fingrafars.

Samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal, stefnir Apple að því að breyta um staðsetningu á kynningunni. Síðustu tvö ár hefur Apple notað Bill Graham Civic ráðstefnusalinn í San Francisco en stefnir nú að því að nota Steve Jobs ráðstefnusalinn sem staðsettur er í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Cupertino í Kaliforníuríki. Höfuðstöðvarnar sem opnuðu í apríl á þessu ári eru þó ekki fullkomlega tilbúnar og gæti það haft áhrif á staðsetning og tímasetningu kynningarinnar samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Jorunal.

Þess má geta að forsvarsmenn Apple hafa neitað að tjá sig um tímasetningu eða staðsetningu kynningarinnar.