Smíðaferli er að hefjast á ísfisktogara fyrir Ramma hf. hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi eftir teikningum íslensku skipahönnunarstofunnar Nautic. Áætlað er að smíðinni ljúki  á síðari hluta ársins 2023. Alfreð Tulinius, skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic, kveðst hlakka til þess að hefja á ný samstarf við tyrknesku skipasmíðastöðina sem smíðaði einnig systurskipin, Engey, Akurey og Viðey eftir teikningum Nautic.

Skipið verður með svokölluðu EnduroBow stefni sem er einkennismerki nokkurra íslenskra skipa sem Nautic hefur hannað. Það verður 48 metra langt og 14 metra breitt. Skráð lengd er 44,6 metrar. Það er hannað fyrir fjögur togspil með möguleika á þriggja trolla veiðum. Alls óvíst er þó hvort sú leið verði farin. Aðalvélin afkastar 1.795 kW og er tengd skrúfu sem er 3,8 metrar í þvermál. Toggeta skipsins verður 45 tonn.

„Það verður annar háttur á smíði þessa skips gagnvart Celiktrans en áður. Við nýtum okkur krafta og þekkingu NauticRus hérna í Pétursborg og teiknum skipið upp í þrívídd. Í framhaldinu skilum við af okkur vinnuteikningum og skurðarplönum til stöðvarinnar,” segir Alfreð þar sem hann var staddur í Pétursborg á sjávarútvegssýningunni Global Fishery Forum.

Ekki ósvipað Eyjasystrum

Skipið verður ekki ósvipað Eyjasystrunum en hálfum metrum breiðari, nokkru styttri og með fleiri grandaravindur. Aðrar leiðir verða farnar hvað snertir hönnun á lestum þannig að ekki verður í skipinu sjálfvirkt lestarkerfi eins og Engey, Akurey og Viðey. Vinnsludekkið verður 285 fermetrar að stærð og rými verður fyrir 590 440 lítra kör. Skipið getur því borið um það bil 185 tonn af afla. Gert er ráð fyrir 16 manns í áhöfn en pláss verður fyrir 20 manns í fjórum eins manns klefum og sex tveggja manna klefum.

Alfreð Tulinius, skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic.
Alfreð Tulinius, skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic.

  • Alfreð Tulinius, skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic.

Á sjávarútvegssýningunni sem nú stendur yfir í Pétursborg er sýningarbás merktur Knarr og þar eru fulltrúar fjögurra fyrirtækja innan þessa samstarfsvettvangs, þ.e. Nautic, Naust-Marine, Skaganum 3X og Kælismiðjunni Frost. Sem kunnugt er hefur NauticRus hannað tíu togara fyrir rússneska sjávarútvegsfyrirtækið Norebo með aðkomu nokkurra fyrirtækja innan Knarr samstæðunnar.

„Við hlökkum til að vinna aftur með íslenskri útgerð við nýsmíði. Allt ákvörðunarferli verður einfaldara en það sem við höfum nú kynnst í Rússlandi,“ segir Alfreð.