Icelandair Group hefur samið við ráðgjafarfyrirtækið Expectus um kaup á hugbúnaðarlausn til rafræns rauntímaeftirlits m.a. með launagreiðslum, tvískráningu kostnaðar og annarra ferla sem skipta félagið miklu máli varðandi meðferð fjármuna, tekjur og kostnað.

Í tilkynningu segir að hugbúnaðurinn sem er íslenskur og hefur fengið nafnið exMon sé hannaður til að hafa eftirlit með gæðum gagna og til stjórnunareftirlits í rauntíma. Expectus hefur unnið að þróun hugbúnaðarins undanfarin þrjú ár og hafa nú þegar nokkur af stærstu fyrirtækjum Íslands tekið hugbúnaðinn í notkun. Í raun má segja exMon geti fylgst með öllum rafrænum ferlum fyrirtækis og tilkynnir um frávik þegar þau koma upp, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Þar er haft eftir Sveinbirni Egilssyni, endurskoðanda Icelandair Group, að exMon leysi þörf fyrirtækisins við að sinna innra eftirliti í hinum ýmsu viðskiptaferlum félagsins og sé í raun hugbúnaður sem félagið hafi leitað að um nokkurn tíma.