Smíði íslenska ofurjeppans ÍSAR TorVeg gengur vel. Hönnun jeppans lauk á síðast a ári og í ágúst sama ár hófst smíði. Jeppinn er hugsaður fyrir björgunarsveitir, ferðaþjónustu, sem og fjársterka einstaklinga.

Hluti af burðarvirki bílsins var sýnt á Nýsköpunarmóti Álklasans í febrúar. Var það vegna þess að jeppinn er að stærstum hluta smíðaður úr áli. Stál er einungis notað í fjöðrunarstykki og þar sem við á. Kostir þess að byggja úr áli eru miklir því það er léttara en stál og ryðgar ekki. Þar sem álið er léttara þá minnkar eldsneytiskostnaður og jeppinn verður umhverfisvænni en ef smíðað hefði verið úr stáli.

Ari Arnórsson er stofnandi ÍSAR. Hann hefur unnið að þessu verkefni í meira en áratug en eins og áður sagði komst skriður á það í fyrra og var það ekki síst vegna styrks sem fyrirtækið fékk frá Tækniþróunarsjóði. Í vetur ákvað síðan Garðar K. Vilhjálmsson, lögmaður og eigandi bílaleigunnar Geysis, að koma inn í verkefnið sem fjárfestir.

Sérþekkingin er lykilatriði

Verkefninu miðar vel áfram," segir Ari. „Við höfum lokið smíði á burðarvirki og yfirbyggingu. Það er búið að setja fjöðrun í bílinn, vélbúnað og drif að framan en við erum að bíða eftir afturdrifinu. Núna fer hann að fá spjarirnar utan á sig. Við erum sem sagt að ganga frá hurðum, brettum og hlerum."

Undanfarna mánuði hafa tíu manns unnið að smíði jeppans.

„Fæstir eru í þessu alla daga vikunnar því við skiptum með okkur verkefnum," segir Ari. "Hver og einn er sérfræðingur á sínu sviði. Það hefur sannað sig að það borgar sig alls ekki að biðja einhvern að vinna verkefni sem hann er ekki vanur að vinna — sérþekkingin er algjört lykilatriði."

Ari segir að þetta sé alls ekki í fyrsta skiptið sem bíll sé smíðaður frá grunni á Íslandi. Aftur á móti sé þetta langflóknasta verkefni, sem lagt hafi verið í hérlendis.

„Ef þetta snerist um að smíða eitt eintak þá værum við fyrir löngu búnir að klára smíðina. Þetta verkefni snýst aftur á móti um að geta hafið raðsmíði á jeppanum. Stór hluti af okkar vinnu hefur því farið í að ganga úr skugga um að hægt sé að raðsmíða á hagkvæman hátt. Sem dæmi þá lét ég sérsmíða gagnagrunn, sem heldur utan um alla þætti smíðinnar. Ég get með einum smelli kallað fram upplýsingar um alla íhluti, kostnað og birgja, svo ég nefni dæmi. Þetta þýðir að frumkvöðullinn þarf ekki fylgja þessu langt fram í tímann því allar upplýsingar um smíðina verða í þessum gagnagrunni."

Raðsmíði á næsta ári

Ari segir að stefnt sé að því að klára frumgerð jeppans á þessu ári og þegar því ljúki fari fram prófanir. Ef allt gangi að óskum þá muni raðsmíði hefjast á næsta ári. Hann segir að fimm kaupendur hafi lýst vilja til að kaupa jeppann og þegar þrír þeirra hafa skrifað undir samning þá hefjist raðsmíðin.

„Hver og einn getur valið hvaða útfærslu hann vill því þetta er allt saman í tölvuforriti. Það er stóra byltingin. Okkar kynslóð nýtur góðs af tölvuvæðingunni því hér áður þurfti að handsmíða hvern og einn bíl. Um 95% af jeppanum okkar verður tölvuskorinn og beygður og bíllinn raðast síðan nánast saman eins og Lego. Það gefur augaleið að það er mikil hagkvæmni fólgin í þessu."
Ari segir að þeir fimm, sem hafi lýst áhuga á að fá fyrstu eintökin, séu í ferðaþjónustu. Fyrstu jepparnir verði því smíðaðir með það í huga. Hann segir að jeppinn muni geta tekið allt að sautján farþega og verið fjögurra, sex eða átta dyra.

„Frumgerðin mun taka tólf farþega auk bílstjóra. Við gerum ráð fyrir því að yfirleitt muni jeppinn taka tíu farþega. Jeppinn verður jafnbreiður og hefðbundin fimmtíu manna rúta."

Nánar er fjallað um íslenska ofurjeppann í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð .