*

föstudagur, 5. júní 2020
Erlent 11. júlí 2019 18:05

Nýr kafli að hefjast hjá Norwegian

Hlutabréfaverð í Norwegian lækkaði um 12,6% í dag eftir að tilkynnt var um forstjóraskipti hjá félaginu.

Ritstjórn
epa

Hlutabréfaverð í Norwegian lækkaði um 12,6% i dag eftir og hefur fallið um 71% síðastliðið ár. Í morgun var tilkynnti um að Bjørn Kjos myndi stíga til hliðar sem forstjóri flugfélagsins eftir 17 ár í starfi. Samhliða því var uppgjör annar ársfjórðungs birt. Markaðsvirði félagsins er nú um 80 milljarðar íslenskra króna. 

Norwegian hefur vaxið hratt á síðustu árum og treyst að miklu leyti á lánsfé til að fjármagna reksturinn. Forstjóraskiptin eru sögð að hluta tilraun til að gefa til kynna út á við að tímabil hins öra og skuldsetta vaxtar sé lokið og nú eigi að fara hægar í sakirnar. Leggja eigi áherslu á hagnað fram yfir vöxt. Uppgjörið sem birt var í dag þyki benda til að félagið hafi tekið skref í rétta átt þar sem rekstrarhagnaður var umfram væntingar greinenda.

 Í umfjöllun WSJ er þó bent á að Björn verði áfram stór hluthafi í félaginu, með um 17% hlut, og ráðgjafi Niels Smedegaard, stjórnarformanns Norwegian. Því sé alls óvíst hversu miklar breytingar verði á stefnu félagsins þegar uppi er staðið.

Einn af stærstu viðfangsefnum nýs forstjóra er að takast á við 250 milljón evra skuldabréfalán félagsins sem er á gjalddaga í desember. Norski viðskiptavefurinn E24 hefur eftir sérfræðingum á fjármálamarkaði að erfitt verði fyrir félagið að endurfjármagna lánið. Ávöxtunarkrafa skuldabréfanna sé sem sakir standa um 18%.

Stikkorð: Norwegian