Forsvarsmenn Capa Invest hafa fest kaup á 20% hlut í IMG Holding sem er eignarhaldsfélag Capacent samstæðunnar. Um er að ræða nýja hluti í félaginu. Capa Invest er nýstofnað fjárfestingafélag í meirihlutaeigu Salt Investments, í eigu Roberts Wessmans, og Draupnis, í eigu Jóns Diðriks Jónssonar.  Kaupverðið er trúnaðarmál.

Í tilkynningu vegna kaupanna segir að með þeim verði Capa Invest kjölfestufjárfestir í Capacent samstæðunni og stærsti einstaki hluthafinn. Meirihluti félagsins er þó enn sem fyrr í dreifðri eign stjórnenda og starfsmanna, en af þeim fer Skúli Gunnsteinsson forstjóri samstæðunnar með stærsta hlutann.

Skúli segir í tilkynningunni að alltaf hafi staðið til að fá fagfjárfesta í hluthafahópinn, til að styrkja félagið til áframhaldandi vaxtar, fyrst og fremst á erlendri grundu.

Capacent hefur í mörg ár haft afar sterka stöðu á íslenska markaðinum sem stærsta ráðgjafar-, ráðninga- og rannsóknafyrirtækið. Fyrir rúmum tveimur árum fjárfestum við í fyrsta fyrirtækinu utan Íslands, en það var í Danmörku. Síðan þá hefur starfsemin þar vaxið mikið og okkur tekist að skipa okkur í allra fremstu röð á danska ráðgjafar- og rannsókna markaðinum.

Sérstaða Capacent byggir mikið á þjónustuframboðinu sem við köllum Capacent módelið og hvernig við samþættum þær lausnir fyrir viðskiptavini félagsins. Capacent veitir þjónustu á sviði rekstrar- og upplýsingatækniráðgjafar, markaðsrannsókna og ráðninga.

“Glitnir veitti okkur ráðgjöf í tengslum við hlutafjárútboðið og leiddi samningaferlið milli kaupenda og seljenda, en við höfum átt náið og gott samstarf við Glitni á sviði fyrirtækjaráðgjafar og fjármögnunar síðan 2005, en á þeim tíma höfum við fjórfaldað umfang félagsins”.

Fram til þessa hefur mikið starf verið unnið í Danmörku, en með nýju fjármagni verður unnt að stíga stórt skref í átt að framtíðarsýn félagsins sem er að verða leiðandi í ráðgjöf, rannsóknum og ráðningum á Norðurlöndum og í norður Evrópu innan fárra ára. Skúli er afar ánægður með aðkomu fjárfestanna og telur að þeir muni með virkri þátttöku sinni í starfi félagsins geta miðlað af reynslu sinni og haft jákvæð áhrif á þróun mála. Nýju fjárfestarnir munu að öllum líkindum taka tvö sæti af fimm í stjórn móðurfélagsins, en það á auðvitað eftir að koma í ljós eftir næsta aðalfund.

Jón Diðrik Jónsson hefur fylgst með Capacent í þó nokkur ár og þekkir félagið vel. Hann telur að Capacent módelið sé sterkt og að tækifæri til að efla félagið séu veruleg, þrátt fyrir að markaðir séu í lægð um þessar mundir. Jón Diðrik hefur áhuga á að gefa kost á sér til stjórnarformennsku í félaginu á næsta aðalfundi.

Árni Harðarson, forstjóri Salt Investments segir að Salt hafi um nokkra hríð haft áhuga á samstarfi við Capacent. Félagið hafi öfluga stjórnendur og starfsmenn, bæði á Íslandi og í Danmörku og hafi alla burði til að ná langt. Tækifæri til stækkunar séu víða í þessum geira og margir aðilar í nágrannalöndunum vilji ganga til liðs við Capacent samstæðuna.

Innan samstæðunnar starfa nú um 340 manns, þar af um 120 hjá Capacent á Íslandi og um 220 hjá Capacent í Danmörku, eftir síðustu kaup félagsins á Institut for Karriereudvikling (IKU), en samningur um þau viðskipti var undirritaður í síðustu viku. Næst á dagskrá hjá forvígismönnum félagsins er að efla starfsemina enn frekar í Danmörku, auk þess sem verið er að skoða athygliverð tækifæri í Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi.