*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 27. febrúar 2019 10:23

Nýr kollagen drykkur á markað

Feel Iceland og Ölgerðin hafa nú lokið tveggja ára þróunarstarfi á nýjum íslenskum drykk með kollageni sem ber heitið Collab.

Ritstjórn
Teymið sem vann að þróun og hönnun vörunnar. Frá vinstri: Erla Anna Ágústsdóttir, Telma Björg Kristinsdóttir, Kristín Ýr Pétursdóttir og Hrönn Margrét Magnúsdóttir.
Lilja B. R. Ránd

Frumkvöðlafyrirtækið Feel Iceland og Ölgerðin hafa nú lokið tveggja ára þróunarstarfi á nýjum íslenskum drykk með kollageni sem ber heitið Collab. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Collab drykkurinn, sem er sykurlaus og með koffíni, verður fáanlegur í lok mánaðarins. Í tilkynningunni segir að hann sé sá eini sinnar tegundar, því Collab innihaldi íslenskt kollagen frá Feel Iceland sem sé unnið úr íslenskum sjávarafurðum. Þetta kollagen gefi 18 mismunandi amínósýrur, þar af átta sem við fáum eingöngu úr fæðunni því að líkaminn framleiði þær ekki sjálfur.

Í vörunni er íslenskt vatn og náttúruleg bragðefni en varan kemur til að byrja með í tveimur bragðútgáfum, límónu og ylliblóma annars vegar og mangó og ferskju hins vegar.

„Samstarfið við Feel Iceland er búið að vera mjög skemmtilegt og virkilega gaman að sjá afraksturinn. Við erum stolt af því að kynna þessa vöru og selja hér á Íslandi en við vitum að það er einnig áhugi á vörunni á erlendum mörkuðum enda á drykkurinn ekki sinn líka í heiminum. Kollagen er eitt umtalaðasta fæðubótarefni okkar tíma og sífellt fleiri eru að uppgötva notagildi þess," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar í tilkynningunni.

,,Það var lengi búið að vera draumur hjá okkur að geta boðið upp á tilbúinn drykk sem innihéldi Feel Iceland kollagen. Ölgerðin er fyrirtæki sem er mjög virkt í þróun á íslenskum vörum og hefur verið framsýnt þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð og því var valið á samstarfsaðila auðvelt fyrir okkur. Ölgerðin tók vel í þessa hugmynd fyrir tveimur árum síðan og við erum búin að eiga frábært samstarf. Það er mikið fagfólk sem hefur komið að þróun drykksins og hefur Telma Björg hjá Ölgerðinni leitt þá vinnu en við erum einstaklega stolt af útkomunni," er haft eftir Hrönn Margréti Magnúsdóttur, stofnandi og framkvæmdastjóri Feel Iceland. 

Stikkorð: Ölgerðin Feel Iceland Collab