*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 23. mars 2020 16:50

Nýr lánareiknir fyrir endurfjármögnun

Aurbjörg býður upp á lánareiknivél þar sem hægt er að sjá hvað megi spara með því að endurfjármagna lán sín.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjártæknivefsíðan Aurbjorg.is hefur hleypt af stokkunum lánareikni fyrir endurfjármögnun lána þar sem einstaklingar geta bori á eigin lánakjörum og þeim sem eru í boði á markaðnum.  Niðurstöðurnar birtast í útreikningi sem sýnir meðal annars mögulegan ávinningi endurfjármögnunar, í krónum talið, miðað við þær upplýsingar sem notandi slær inn.

Stýrivextir hafa lækkað úr 4,5% í 1,75% undanfarin ár og hafa aldrei verið lægri. Breytingar á vaxtakjörum lánveitenda hafa því verið nokkuð tíðar. „Í ljósi þess að vextir eru í sögulegu lágmarki er nú einstakt tækifæri til endurfjármögnunar á húsnæðislánum einstaklinga sem hafa tekið lán á kjörum sem eru lakari en þau sem bjóðast í dag. Lánareiknir Aurbjargar nýtist þeim sem vilja lækka vaxtakostnað óháð því hvort þeir vilja greiða lán hraðar upp, lækka greiðslubyrði eða hvorutveggja. Þetta er frábær þjónusta fyrir neytendur og einfaldar mjög ákvarðanatöku sem gæti sparað tugi þúsunda og í sumum tilfellum jafnvel milljónir.“ segir Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Aurbjargar í tilkynningu frá félaginu. 

Lánareiknir Aurbjargar er aðgengilegur á aurbjorg.is og tekur hann mið af lánareglum allra lánveitenda sem bjóða upp á húsnæðislán. Markmiðið er að einfalda flókið ferli á þann hátt að einstaklingur geti á örstuttum tíma séð hverju endurfjármögnun gæti skilað honum í krónum og aurum.