*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Fólk 23. nóvember 2021 13:24

Nýr leiðtogi markaðsmála hjá BYKO

Þóranna K. Jónsdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf leiðtoga markaðsmála hjá BYKO.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Þóranna K. Jónsdóttir hefur verið ráðin leiðtogi markaðsmála hjá BYKO en með því er starfssvið markaðsmála víkkað í kjölfar stofnunar nýs Framþróunarsviðs fyrirtækisins. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningu segir að í starfinu felist yfirumsjón með markaðsmálum sem nú nái einnig til persónumiðaðrar nálgunar í sölu- og markaðssetningu. Þóranna muni leiða markaðsdeild BYKO sem tilheyri nýlega stofnuðu sviði Framþróunar verslunar og viðskiptavina. 

„BYKO er á fleygiferð inn í framtíðina og stór þáttur í þeirri vegferð er ný nálgun í markaðssetningu. Við erum því gríðalega ánægð með að fá Þórönnu til liðs við okkur og fá að njóta víðtækrar reynslu hennar og þekkingar af markaðssetningu, vörumerkjastjórnun og stafrænum lausnum svo eitthvað sé nefnt,“ segir í fréttatilkynningu BYKO.

Þóranna hefur starfað sem markaðs- og kynningarstjóri SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu sl. 3 ár, auk þess að stýra verkefnum samtakanna sem lúta að stuðningi við stafræna umbreytingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og eflingu stafrænnar hæfni í atvinnulífi og á vinnumarkaði. Það starf hefur leitt til stofnunar Stafræns hæfniklasa í samstarfi við VR og Háskólann í Reykjavík og samstarfs við stjórnvöld á vettvangi klasans.

Hún hefur starfað í markaðs- og ímyndarmálum í yfir 20 ár, á auglýsingastofunni Góðu fólki og hjá Publicis í London, við markaðssetningu í tæknigeiranum, fjármálageiranum og sem markaðsráðgjafi hérlendis og erlendis - sl. áratug með áherslu á stafræna markaðssetningu. Hún hefur starfað mikið í nýsköpunargeiranum og m.a. sett upp nýsköpunarsetur á Suðurnesjum í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Ísland. Að auki hefur Þóranna stofnað og rekið sitt eigið upplýsingatæknifyrirtæki.

Þóranna er höfundur bókaseríunnar Marketing Untangled og hefur gegnt stöðu stundakennara við Háskóla Íslands auk kennslu víða í atvinnulífinu. Þóranna hóf háskólaferilinn með BA í Perfomance frá Mountview Academy - University of East Anglia þar sem hún lærði leiklist og söng. Hún er einnig með MBA with distinction frá University of Westminster í London.

Stikkorð: BYKO