Nýr leikur tölvuleikjaframleiðandans CCP, Dust 514, verður í lokaðri beta-prufukeyrslu út þetta ár og er áætluð útgáfa leiksins á fyrri hluta næsta árs, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.

CCP hefur til þessa ekki gefið út fastan útgáfudag á leiknum en á spilarahátíð CCP, Fanfest, í mars kom fram að stefnt væri að því að opnað yrði fyrir almennan aðgang að leiknum í september á þessu ári og að tengingin við flaggskipsleik CCP, EVE Online, yrði kláruð á nýju ári. Eins og áður segir verður leikurinn hins vegar ekki opnaður fyrr en á næsta ári.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem útgáfunni er frestað, en sumarið 2011 var stefnt að því að leikurinn kæmi út um vorið 2012. Hafa ber aftur á móti í huga að alls ekki er óalgengt að útgáfa stórra tölvuleikja frestist, enda eru spilarar nútímans einkar kröfuharðir hvað varðar gæði á leikjum. Leikurinn hefur verið í lokaðri Beta-prufu frá því í júní á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.