Nýr leikur tölvuleikjaframleiðandans CCP, EVE Valkyrie, var kynntur á aðalkynningu Sony á einni stærstu leikjaráðstefnu heims E3 í gær. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá CCP.

EVE: Valkyrie er svokallaður VR (virtual reality) leikur sem verður fáanlegur fyrir Morpheus sýndarveruleikabúnað Sony á PlayStation 4 og Oculus RIFT sýndarveruleikabúnað Oculus VR fyrir PC tölvur. VR, eða sýndarveruleiki, er svið sem fjölmörg leikjafyrirtæki og mörg stærstu tæknifyrirtæki heims hafa verið að færa sig inn á undanfarið. Facebook tók skref inn á þann markað síðasta sumar með kaupum sínum á Oculus VR fyrir tvo milljarða bandaríkjadollara.

Fram kemur í tilkynningunni að E3, eða Electronic Entertainment Expo, sé ein stærsta leikjaráðstefna heims og sú allra stærsta sem aðeins er opin fagfólki og fjölmiðlum. Alls kynna þar 200 leikjaframleiðendur afurðir sínar og sækja nú 30 þúsund manns ráðstefnuna sjálfa.

Leikur CCP er jafnframt hluti af sýningarbás Sony á ráðstefnunni þar sem blaðamönnum og starfsfólki tölvuleikjaiðnaðarins gefst kostur á að prófa leikinn sem væntanlegur er á markað á fyrsta ársfjórðungi á næsta ári.

Þá var eftirfarandi kynningarmyndband frumsýnt á ráðstefnunni: