Á leikjaráðstefnunni Game Developers Conference, sem haldin var í San Fransisco í síðustu viku, kynnti CCP nýjan sýndarveruleikatölvuleik sem fengið hefur nafnið Project Arena. Þetta er þriðji sýndarveruleikatölvuleikur CCP, en hinir tveir eru EVE: Valkyrie og Gunjack. Project Arena er enn í þróun og í raun ekki fastákveðið að hann verði gefinn út, en nokkrir blaðamenn fengu að prófa leikinn eins og hann er nú og af umfjöllun erlendra leikjamiðla um leikinn að ráða voru þeir afar hrifnir.

Project Arena er eins og stendur hannaður fyrir HTC Vive, sem er sýndarveruleikabúnaður hannaður af farsímaframleiðandanum HTC og tölvuleikjaframleiðandanum Valve. Í frétt iDigitalTimes segir hins vegar að leikurinn gæti komið út fyrir fleiri kerfi, svo sem Oculus Rift.

Leikurinn, í þeirri mynd sem hann er núna, er nokkurs konar íþróttaleikur, þar sem leikmenn geta spilað tveir saman. Geta þeir spilað tennis eða útgáfu af skotbolta.