Erna Ómarsdóttir hefur verið ráðin listrænn ráðgjafi Íslenska dansflokksins fyrir leikárið 2014-2015.

Í tilkynningu frá Íslenska dansflokkinum segir að Erna sé einn virtasti dansari og danshöfundur Íslendinga og hafi unnið með nokkrum fremstu dans- og sviðlistahópum Evrópu.

Erna hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín sem listamaður, þar á meðal fimm Grímuverðlaun, Menningarverðlaun DV, verið valin heiðurslistamaður Kópavogsbæjar og verið nefnd sem efnilegasti dansari, danshöfundur og besti dansarinn af einu helsta danstímariti heims, Ballet Tanz.

Erna er ekki ókunn hlutverki listræns ráðgjafa en hún hefur verið listrænn stjórnandi Reykjavík Dance Festival, Les Grandes Traversees sviðslistahátíðarinnar í Bordeaux og Shalala danshópsins.

Síðastliðin ár hefur Erna aðallega unnið að eigin verkum með danshópnum sínum Shalala sem hefur notið mikilla vinsælda í Evrópu.