Lífeyrissjóðum verður heimilt að fjárfesta í bréfum á First North markaði og flokka þau bréf sem skráð í bókum lífeyrissjóðanna. Í dag mega óskráð bréf einungis nema 20% af hreinni eign lífeyrissjóðanna. Þessar breytingar gætu því breytt miklu fyrir lífeyrissjóðina og ekki síður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Hingað til hefur það ekki verið hvetjandi fyrir slík fyrirtæki að skrá sig á First Norh markað, meðal annars vegna þess að stærstu fjárfestarnir, lífeyrissjóðirnir, taka þar ekki virkan þátt.

First North er hliðarmarkaður Kauphallarinnar sem er markaðstorg fjármálagerninga. Hér á landi er First North markaðurinn einn sinnar tegundar. Ekki eru gerðar jafn miklar kröfur á markaðstorgi fjármálagerninga miðað við á skráðum markaði sem er skipulegur markaður.

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, mælti fyrir frumvarpinu á þingi en að undanförnu hafa borist ellefu umsagnir um frumvarpið. Flestar umsagnir eru jákvæðar og breytingin talin vera framfaraskref. Ákveðnar áhyggjur eru uppi vegna þess að kröfurnar eru minni á markaðstorgi en á skipulegum markaði. Ekki er víst heldur að First North verði eina markaðstorgið í framtíðinni og þó svo að Kauphöllin setji skýrar reglur þá þurfi aðrir aðilar að gera slíkt hið sama.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .