Eiríkur Finnur Greipsson, oddviti sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ, fær ekki embætti bæjarstjóra eins og hann og flokkurinn höfðu sóst eftir. Framsóknarmenn gerðu kröfu um að staðan yrði auglýst ef af áframhaldandi samstarfi flokkanna ætti að geta orðið. Gengu sjálfstæðismenn að þeirri kröfu.

Undirritun í næstu viku

„Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í bæjarstjórn Ísafjarðar hafa undirritað samkomulag um áframhaldandi meirihlutasamstarfi þessara flokka. Og við ætlum okkur að ganga frá málefnasamningi fyrripart næstu viku. Fljótlega upp úr því munum við skrifa undir samninginn. Við erum búnir að ganga frá stærstum hluta málefna þannig að ég held að það sé ekkert sem geti komið í veg fyrir að af þessu verði," segir Eiríkur Finnur.

„Við sjálfstæðismenn erum búnir að ræða þetta í hópi stjórnar fulltrúaráðsins með fulltrúum listans. Hann veitti okkur bæjarfulltrúunum umboð til að ganga til þessara samninga á grundvelli þess samkomulags sem við gerðum í gær."

Embættaskipting á hreinu

Eiríkur Finnur segist ekki sjá neitt í stöðunni sem ætti að geta komið í veg fyrir að af þessari meirihlutamyndun verði. „Það er búið að fara yfir þá þætti sem gætu verið ásteytingarsteinn í málefnasamningnum og það er búið að leysa það allt. Þá er búið að skipta með okkur formennsku í nefndum, formanni bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar. Einnig er búið að gera samkomulag um að það verði auglýst eftir bæjarstjóra sem var kannski stærsti fréttapunkturinn fyrir almenning."

Helvíti lélegur stóll

Eiríkur var að vonum ánægður með stöðu mála þegar Viðskiptablaðið ræddi við hann. Sagist hann þó eðlilega helvíti svekktur yfir að fá ekki bæjarstjórastólinn eins og lagt hafi verið upp með. Enda hefðu trúlega verið hæg heimatökin hjá honum að láta smíða nýjan stól sem framkvæmdastjóri innréttingafyrirtækisins TH ehf.

„Ég var að vísu aldrei búinn að máta stólinn hjá Halldóri, en ég sá að hann var orðinn helvíti lélegur," sagði Eiríkur og hló.

„Annars erum við sammála um ráðningarferlið og með hvaða hætti við ætlum að velja nýjan bæjarstjóra." Eiríkur segir að ekki hafi þó verið sett fram nein tímasetning varðandi ráðningu nýs bæjarstjóra. Menn gefi sér þó vart mikið meiri tíma en einn til einn og hálfan mánuð til að finna einstakling í það embætti.