Farþegaskattur lagður á ferðamenn sem fljúga frá norskum flugvöllum mun taka gildi frá og með næsta ári. Frá þessu er sagt á vef Túrista .

Skatturinn nemur 88 norskum krónum eða rétt rúmlega 1340 íslenskum krónum.

Skatturinn verður aðeins lagður á þá farþega sem fljúga frá norskum flugvöllum en ekki á þá sem koma til Noregs.Einna oftast er flogið til Osló, höfuðborgar Noregs, frá Leifsstöð. Í síðasta mánuði voru ferðirnar þangað allt að 90 talsins. Aðeins var flogið oftar til Kaupmannahafnar og Lundúna.

Flugfélög sem fara um Rygge-flugvöll nálægt Osló hafa mótmælt þessari nýju skattlagningu. Sérstaklega myndi skatturinn hafa áhrif á flug innan Noregs, en þá legðist hann á báða leggi ferðalagsins.