Finnski farsímaframleiðandinn Nokia kynnti á dögunum nýjan snjallsíma sem keyrir á Windows stýrikerfinu, en verð á símanum verður lægra en á öðrum Nokia Windows-símum. Símanum, Lumia 610, er ætlað að keppa við Android símtæki í verði og verður seldur í Evrópu á 189 evrur, sem samsvarar um 32.000 krónum. er það um 8.000 krónum lægra verð en er á Lumia 710 símanum, sem hingað til hefur verið ódýrasti Windows-síminn frá Nokia.

Fyrstu tveir símarnir, Lumia 710 og 800, hafa fengið góða dóma og samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hafa um milljón eintök selst. Þrátt fyrir það hefur gengi hlutabréfa Nokia lækkað um 10% frá því að þau voru fyrst kynnt til sögunnar í lok október í fyrra. Neytendur hafa margir kosið ódýrari Android síma eða iPhone síma frá Apple.