Financial Times fjallar í dag um stöðu íslenskra banka, og kveður við nýjan og jákvæðari tón í umfjöllun blaðsins en áður.

Í greininni segir að fyrsti ársfjórðungur hafi verið viðburðarríkur hjá íslensku bönkunum. Þeir hafi þolað þung högg vegna heimsmarkaðsaðstæðna og líka frá ætluðum árásum vogunarsjóða.

Vegna þessa hafi þeir átt í ströggli með að sannfæra aðila um að hrun bankanna væri ekki yfirvofandi.

Hins vegar hafi uppgjör fyrsta ársfjórðungs hjá viðskiptabönkunum þremur (Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir) verið uppörvandi og gefið til kynna að „íslenska bankastorminn“ sé loksins að lægja. Uppgjörin sýni að bankar á Íslandi standi vel og séu reknir á hefðbundnari hátt en áður hafi verið talið.

Þrátt fyrir þessar jákvæðu fréttir hafa ýmsir enn sínar efasemdir um stöðu bankanna.

„Íslensku bankarnir treysta mikið á alþjóðlega fjármögnun og eru berskjaldaðir fyrir mati alþjóðlegra fjárfesta“ hefur Financial Times eftir greiningaraðila hjá Standard & Poor´s.

„Eftir að möguleikar á alþjóðlegri fjármögnun hafa verið minnkaðir verulega frá því síðasta haust bíður íslensku bankanna verðugt verkefni, að reyna að finna uppsprettur fjármögnunar og greiðslugetu.“

Grein Financial Times má nálgast hér.