Sprotafyrirtæki starfa við sköpun sem oftast er í formi vöruþróunar sem er ný af nálinni. Sprotar eru fyrirtækin sem rugga bátnum. Þau sem leggja á sig að berjast í gegnum öræfin og ögra stöðnun í umhverfinu. IKEA, Icelandair, Apple og vodafone eiga það öll sameiginlegt að hafa verið sprotar.

Þetta segir Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri Oz, í pistli í Viðskiptablaðinu er Guðjón Már er nýr pistlahöfundur hjá blaðinu og mun skrifa á þemasíðu um atvinnulíf, sem er ein af fjölmörgum reglulegum þemasíðum blaðsins.

Í fyrsta pistli sínum fjallar Guðjón Már um sprotafyrirtæki og mikilvægi þeirra í hagkerfinu.

„Þekkingarmiðlun innan sprota er margfalt hraðari en í öðrum greinum atvinnulífsins. Sprotar eru erfiðir viðureignar en á sama tíma jákvæð ögrun fyrir alla þá sem koma að þeim,“ segir Guðjón Már.

„Sprotar laða til sín metnaðarfullt fólk, ekki vegna launanna heldur er það sjálf áskorunin og þau endalausu tækifæri til að læra nýja hluti sem draga að. Þegar allt kemur til alls þá geta þessir þættir úr um- hverfi sprotanna skilað mun meiru til einstaklinganna en stærri launatékki hefði gert í frekar stöðnuðu vinnuumhverfi. Sér í lagi ef tækifæri gefst að taka þátt í uppbyggingu sprota snemma í ferlinu.“

Guðjón Már segir að sprotafyrirtækin þurfi að hafa fyrir því að ná til öflugra einstaklinga.

„Tilvist sprotanna og tilgangur þarf að vera skýr. Framtíðarsýnin er sameiginleg og árangur á innleiðingu hennar þarf að vera mælanlegur. DNA þessara fyrirtækja þarf að byggja á jákvæðri hvatningu og umbun sem byggir í grunninn á trausti og virðingu. Þessir grunneiginleikar móta svo öflugan vinnukúltúr þar sem teymið nær að blómstra og eflast,“ segir Guðjón Már.

Sjá pistil Guðjóns Más í heild sinni.