Point á Íslandi hefur í samstarfi við Valitor, lokið smíði á hugbúnaði fyrir posa sem er hannaður fyrir snertilausar greiðslur. Hugbúnaðurinn er sá fyrsti hér á landi sem býður upp á  þessa tækninýjung.

Í tilkynningu frá Valitor kemur fram að hinn nýi hugbúnaður geri söluaðilum kleift að taka annars vegar á móti greiðslum með snertilausum Visa kortum og hins vegar með svokölluðum snjallsímagreiðslum þar sem greiðslukortavirkni hefur verið komið fyrir á SIM korti snjallsímans. Hugbúnaðurinn er vottaður af Visa Europe þar sem unnið hefur verið eftir svonefndum Visa PayWave stöðlum. Þá hefur Greiðsluveitan lokið sinni vottun sem er forsenda fyrir notkun posanna hér á landi.

„Þetta er stórt skref  á þeirri vegferð okkar að koma á snertilausum greiðslum á Íslandi,“ segir Sigurhans Vignir, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Valitor, í tilkynningunni.

„Með þessa þróunarvinnu í höfn getum við undirbúið söluaðila fyrir tilraunaverkefnið sem Valitor stendur fyrir með útgáfu snertilausra korta og Snjallsímagreiðslna í samstarfi við alla kortaútgefendur landsins, en að því samstarfsverkefni koma auk þess  Síminn og Vodafone.“

Hugbúnaðurinn fer nú í dreifingu til raunprófanna hjá völdum söluaðilum til þess að tryggja rétta virkni áður en almenn dreifing hefst. Allir færsluhirðar og þjónustuaðilar sem bjóða söluaðilum posa af gerðunum VeriFone Vx820 og Vx680 frá Point geta uppfært þá posa með þessum hugbúnaði.