Ný útgáfa af símaskrárvefnum ja.is er við það að fara í loftið, en hægt er að skoða nýju útgáfuna með því að fara á beta.ja.is . Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segir að unnið hafi verið sleitulaust að hönnun vefsins undanfarna mánuði. „Við erum búin að vera að vinna í mikilli tækniþróun fyrir vefinn og er markmiðið að auka mjög við upplýsingagjöf til notenda. Í fyrsta lagi erum við að kynna nýja leitartækni, sem hingað til hefur í raun bara sést á stórum vefjum eins og Google. Leitarvélinspáir fyrir um það að hverju þú ert að leita á meðan þú skrifar inn í leitargluggann og vefsíðan sýnir þér mögulegar niðurstöður í rauntíma. Spáin byggir á notkunarmynstri á vefnum undanfarna mánuði.“

Þá er magn upplýsinga, einkum um fyrirtæki, aukið til muna frá því sem nú er. „Við höfum hingað til í raun bara gefið upplýsingar um síma- og faxnúmer og vefsíðu. Við þetta bætist núna færsla í fyrirtækjaskrá, Facebook- og Twittersíður, upplýsingar um opnunartíma, ummæli notenda á stjornur.is og þá geta fyrirtækin sjálf bætt við upplýsingum um sig.

Kortavefur ja.is hefur einnig verið uppfærður og býður vegvísirinn núna upp á að slegin séu upp tvö símanúmer og fær notandinn þá upp kort þar sem besta leiðin milli þessara tveggja staða er merkt inn. „Vefurinn er snjallvefur, sem þýðir að hann kemur vel út burtséð frá því hvort hann er skoðaður á tölvu, spjaldtölvu eða í snjallsíma. Við erum búin að opna fyrir aðgang að nýja vefnum og erum að taka við ábendingum frá notendum. Við þurfum að fá nokkuð mikið af notendum inn á nýja vefinn til að sjá hvernig hann stendur sig, en við vonumst til að geta opnað hann formlega innan nokkurra daga.“