Endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Ernst & Young ehf. (EY) á Íslandi fær í dagh leyfi til að starfa sem viðurkenndur ráðgjafi (e. Certified Adviser) á First North Iceland. Með þessu er EY orðið fullgildur ráðgjafi fyrirtækja við skráningu verðbréfa á hlutabréfa- og skuldabréfamarkað First North Iceland og á meðan viðskipti eru með verðbréf viðkomandi fyrirtækja á markaðnum.

Hlutverk viðurkennds ráðgjafa felst einkum í að vera félögum til halds og trausts þegar skráningarferli stendur yfir og vera ráðgjafi og milliliður í samskiptum við markaðinn meðan verðbréf félags eru í viðskiptum. Það er á ábyrgð viðurkennds ráðgjafa að fylgjast með því að félög uppfylli ávallt þær aðgangskröfur og upplýsingaskyldur sem gilda á First North Iceland.

Við erum stolt af því að vera orðin viðurkenndur ráðgjafi á First North Iceland markaðnum,” segir Guðjón Norðfjörð, sviðsstjóri viðskiptaráðgjafar hjá Ernst & Young í tilkynningu. „Við byggjum á breiðum og reynslumiklum hópi sérfræðinga við ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja og þetta er enn eitt skrefið hjá okkur að bæta og efla þjónustu við viðskiptavini okkar. Það verður spennandi að taka þátt í að efla First North markaðinn á Íslandi.“