Utanríkisráðuneytið hefur gert samning við Alþjóðalánastofnunina, International Finance Corporation (IFC), sem er undirstofnun Alþjóðabankans, um nýjan íslenskan ráðgjafarrsjóð að upphæð 240.000 Bandaríkjadalir. Efnt verður til kynningar á sjóðnum á opnum fundi í utanríkisráðuneytinu hinn 3. febrúar næstkomandi segir í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Fé úr sjóðnum verður nýtt til þess að greiða fyrir tæknilega þjónustu íslenskra ráðgjafa vegna verkefna á vegum IFC sem gefur íslenskum
fyrirtækjum frekari tækifæri til að vinna með IFC á nýjum mörkuðum og í þróunarríkjum segir í frétt Stikla.

Ráðgjafarsjóðurinn er þannig einnig til þess fallinn að auka viðskipti íslenskra fyrirtækja við þróunarlöndin. Tilkoma sjóðsins getur haft mikla þýðingu fyrir samstarf IFC og íslenskra aðila í framtíðinni. Hlutverk IFC er að berjast gegn fátækt og stuðla að efnahagslegri framþróun með fjárfestingum og lánum til uppbyggingar fyrirtækja í þróunarlöndum.

Auk þess veitir IFC stjórnvöldum þróunarríkja tækniaðstoð til að betrumbæta viðskiptaumhverfi og efla einkageirann. Starfsemi IFC hefur vaxið mikið á undanförnum misserum og eru mörg sóknarfæri á
vettvangi stofnunarinnar um þessar mundir. Íslenski ráðgjafarsjóðurinn er framlag Íslands til þess að efla IFC, en um leið góður kostur til að styrkja enn frekar samstarf íslenskra ráðgjafa og Alþjóðabankans.

Starfsemi íslenska ráðgjafarsjóðsins verður hluti af verkefni IFC um tækniaðstoð (Technical Assistance Trust Funds Program). Verkefnið spannar aðstoð vegna sértækra verkefna einstakra fyrirtækja, þ.m.t. hagkvæmniathuganir, þekkingaruppbyggingu og tækniyfirfærslu eða ráðgjafarþjónustu í þágu hins opinbera. IFC hefur frá upphafi veitt lán og aðra aðstoð til um 3.300 fyrirtækja í 140 löndum og er tækniaðstoð á vegum ráðgjafarsjóða mikilvægur liður í að hrinda slíkum verkefnum í framkvæmd. Tuttugu og fimm aðildarlönd styrkja nú ráðgjafarsjóði á vegum IFC.