Stjórn Íslandsbanka samþykkti á síðasta stjórnarfundi sínum að staðfesta ráðningarsamning við Birnu Einarsdóttur bankastjóra. Áður hafði Birna gengið undir hæfnispróf Fjármálaeftirlitsins en það gerði hún samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins í janúar síðastliðnum. Nýi ráðningasamningurinn er án tímatakmarkanna og er með hefðbundnum uppsagnarfresti.

"Mikið uppbyggingarstarf hefur farið fram innan Íslandsbanka á liðnu ári undir forystu bankastjórans, Birnu Einarsdóttur. Stjórn Íslandsbanka taldi hagsmuni bankans best tryggða undir áframhaldandi forystu Birnu enda brýn verkefni framundan sem snúa að fjárhagslegri endurskipulagningu viðskiptavina bankans og endurreisn atvinnulífsins," sagði Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka í tilkynningu sem Viðskiptablaðið hefur fengið. "Ég er ánægð með þessa niðurstöðu stjórnar og hlakka til að vinna áfram með henni og öllum starfsmönnum Íslandsbanka að áframhaldandi uppbyggingu bankans og þjónustu við viðskiptavini hans,"  segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.