Tillögur verkefnastjórnar um framtíð húsnæðismála sem kynntar eru nú í ríkisstjórn kveða á um stofnun nýs ríkisbanka á húsnæðislánamarkaði og að Íbúðalánasjóður verði lagður niður í núverandi mynd samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Nýi ríkisbankinn eða lánastofnun á vegum ríkissjóðs mun ekki starfa með beinni ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt tillögunum en er ætlað að halda utan um skuldabréfaútgáfu í tengslum við hið svokallaða danska kerfi í húsnæðislánveitingum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður verði lagður niður í núverandi mynd með tíð og tíma. Undið verður ofan af starfsemi sjóðsins eftir því sem skuldbindingar hans renna út.