Katharine Viner hefur verið ráðin ritstjóri breska dagblaðsins Guardian og mun taka við starfinu af Alan Rusbinger sem hefur stýrt blaðinu frá árinu 1995. Þetta kemur fram í frétt Guardian. Viner gegnir stöðu ritstjóra Guardian í Bandaríkjunum og mun taka við starfinu í sumar.

Viner verður fyrsta konan til að gegna stöðunni í 194 ára sögu blaðsins og eina konan á meðal ritstjóra stærstu dagblaða í Bretlandi. Var hún kosin á meðal starfsmanna blaðsins til starfsins fyrr í mánuðinum og hlaut hún 53% atkvæða.

Hún hefur starfað fyrir Guardian frá árinu 1997 þegar hún var 26 ára gömul en áður en hún stýrði útgáfu blaðsins í Bandaríkjunum kom hún á fót útgáfu blaðsins í Ástralíu.