Vodafone (Fjarskipti hf.) og Emerald Networks hafa undirritað samning um afnot af nýjum sæstreng sem nefnist Emerald Express og ráðgert er að leggja milli Bandaríkjanna og Evrópu með tengingu við Ísland. Emerald Networks ráðgerir að leggja strenginn á næstunni en Vodafone stefnir að því að nýta hann til gagnaflutninga til og frá landinu í a.m.k. 15 ár frá og með haustinu 2014, að því er segir í tilkynningu. Með tilkomu strengsins margfaldast gagnaflutningsgeta Vodafone.

Emerald Express sæstrengurinn verður afkastamesta og hraðasta gagnaflutningstengingin á milli Norður Ameríku og Evrópu og mun hann jafnframt tengjast við Ísland samkvæmt því sem segir í tilkynningunni. Strengurinn byggir á nýrri tækni sem auðveldar uppfærslur á afkastagetu hans síðar. Heildarlengd strengsins er yfir 6.700 km og þar af er leggurinn sem lagður verður til Íslands um 1.300 km. Sæstrengurinn mun koma á land í nágrenni við Grindavík. Emerald Networks hefur samið við bandaríska fyrirtækið TE SubCom um að leggja strenginn.

Fyrir 15 ára afnotarétt af strengnum og kaup á búnaði greiðir Vodafone stofnkostnað en meginþungi þeirrar fjárfestingar fellur til á þriðja ársfjórðungi 2014 og þriðja ársfjórðungi 2015. Stofnkostnaður verður eignfærður og afskrifaður á líftíma samningsins. Auk þessa greiðir Vodafone árlegan kostnað sem gjaldfærður verður í gegnum rekstur félagsins. Samningurinn tryggir Vodafone a.m.k. 15 ára afnot af strengnum. Vodafone fær aðgang að strengnum strax við gangsetningu hans og þá verða fyrstu greiðslur inntar af hendi. Fjárhæðir samningsins eru trúnaðarmál milli samningsaðila.

Í tilkynningunni segir að miklar líkur séu á því að áhrif samningsins á EBITDA hagnað og hagnað félagsins verði jákvæð en ekki sé þó hægt að segja nákvæmlega til um hver þau verða. Áhrifin munu ráðast af þeim viðbótartekjum sem Vodafone mun hafa af gagnaflutningum á samningstímanum og því rekstrarhagræði sem skapast af samningnum.