Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari vegna hruns bankakerfisins, hefur ákveðið að leita til annarra ríkisstofnanna eftir fólki til að manna stöður hjá embættinu. Að sögn Ólafs hefur hann fengið góð viðbrögð við því en ráðningar með þessum hætti auka sveigjanleika embættisins til að nýta betur þá fjármuni sem það hefur til ráðstöfunar.

"Það er ljóst að það þarf að fara vel með þá peninga sem við höfum til ráðstöfunar," sagði Ólafur Þór í samtali við Viðskiptablaðið.

Að sögn Ólafs hafa undanfarnar vikur farið í að finna hentugt húsnæði og vinna í mannaráðningum. Húsnæðið hefur fengist í Borgartúni 7B. Gengið hefur verið frá ráðningum á þremur til fjórum starfsmönnum og sagði Ólafur að áfram yrði unnið að því að manna embættið. Þeir sem ráðnir hafa verið koma frá ríkislögreglustjóra og efnahagsbrotadeild lögreglunnar en að sögn Ólafs kemur einnig til greina að leita til annarra eftirlitsstofnanna innan stjórnsýslunnar.

Að sögn Ólafs hefur móttaka erinda ekki hafist ennþá enda skrifstofan ekki opnuð. Það mætti búast við miklu magni gagna og nauðsynlegt að tryggja öryggi þeirra.

Ólafur mun veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti skv. lögum nr. 135/2008 sem rannsaka á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar bankahrunsins, hvort sem það tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn. Ólafur tekur við embættinu frá og með 1. febrúar 2009 og gildir sú skipan uns embættið verður lagt niður eða það sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. ákvæði laga um embætti sérstaks saksóknara, en þá mun hann taka við embætti sýslumanns á Akranesi að nýju. Að sögn Ólafs er unnið að því að setja upp sérstaka heimasíðu fyrir embættið þar sem hægt verður að senda inn ábendingar.