Lánasýsla ríkisins hefur gert nýjan samning í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði, segir í fréttatilkynningu.

Þar segir að markmiðið með samningnum er að styrkja aðgang ríkissjóðs að lánsfé og efla verðmyndun á eftirmarkaði.

Samkvæmt nýja samkomulaginu sem tekur gildi þann 30. maí 2006 munu fimm fjármálastofnanir hafa heimild til að kalla sig Aðalmiðlara með ríkisverðbréf. Þær eru: Glitnir banki, KB banki, Landsbanki Íslands, MP Fjárfestingarbanki og Straumur Fjárfestingarbanki.

Samningurinn er að flestu leyti sambærilegur og fyrri samningar um sama efni utan þess að nú nær einn samningur til allra ríkisverðbréfa í stað tveggja áður. Helstu atriði samningsins eru þau að aðalmiðlarar hafa einir aðgang að útboðum Lánasýslu ríkisins og verðbréfalánum sem Lánasýsla ríkisins veitir.

Aðalmiðlari skuldbindur sig til að setja fram markaðsmyndandi tilboð í
útboðum ríkisverðbréfa fyrir að minnsta kosti 500 milljónir króna og einnig er aðalmiðlari viðskiptavaki á eftirmarkaði fyrir alla markflokka ríkisbréfa og
ríkisvíxla og setur fram kaup- og sölutilboð að lágmarki 100 milljónir króna að nafnvirði í hvern flokk ríkisbréfa og ríkisvíxla í Kauphöll Íslands, utan þeirra flokka ríkisvíxla og ríkisbréfa sem eiga styttra en þrjá mánuði til gjalddaga og ríkisbréf í flokki RIKB 07 0209 en í þeim flokkum miðast skyldan við að setja fram kauptilboð.

Samningurinn gildir frá 30. maí 2006 til 31. maí 2007. Þóknun til allra
aðalmiðlara ríkisskuldabréfa á samningstímanum verður 160 milljónir króna.