Á morgun tekur gildi nýr samningur banka og sparisjóða um millibankaþjónustu en það telst vera þjónusta sem veitt er þegar bankar og sparisjóðir afgreiða viðskiptavini annarra banka og sparisjóða. Þetta á til að mynda við þegar tekið er út af reikning í öðrum banka en viðskiptabanka reikningseiganda og þegar reikningur er greiddur í öðrum banka en þeim sem gefur út greiðsluseðilinn. Með þessum samningi fellur úr gildi eldri samningur og gjald vegna millibankaþjónustu sem verið hefur óbreytt frá árinu 1997.

Breytingin er gerð til þess að koma til móts við athugasemdir Samkeppniseftirlitsins við fyrirkomulag gjaldtöku vegna þessarar þjónustu, en fram til þessa hefur gjald vegna millibankaþjónustu verið samræmt milli banka og sparisjóða og innheimt af banka eða sparisjóði viðskiptamanns.

Samningurinn felur í sér að hver og einn banki eða sparisjóður ákvarðar einhliða þau gjöld sem hann innheimtir vegna millibankaþjónustu. Þegar viðskiptavinur fjármálafyrirtækis sækir sér þjónustu í öðrum banka eða sparisjóði en sínum eigin þá miðast kostnaðurinn við verðskrá þess sem veitir þjónustuna. Bönkum og sparisjóðum er þó heimilt að taka þátt í að greiða fyrir millibankaþjónustu fyrir hönd sinna viðskiptavina.

Bankar, sparisjóðir og Seðlabanki Íslands eiga aðild að samningnum. Samtök fjármálafyrirtækja hvetja viðskiptavini aðildarfyrirtækja sinna þess til þess að kynna sér þessar breytingar en nánari upplýsingar um gjaldskrá fyrirtækjanna má finna á heimsíðum þeirra.