Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur skipað Jerome Powell í stöðu seðlabankastjóra, en hann hefur setið í stjórn bankans frá 2012.  Erlendir miðlar hafa síðustu daga talið afar líklegt að hann yrði fyrir valinu eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

Powell er 64 ára Repúblikani og hefur setið í stjórn bankans frá árinu 2012. Powell er menntaður í lögfræði við Georgetown háskóla í Bandaríkjunum og var skipaður meðal æðstu manna í fjármálaráðuneytinu í Bandaríkjunum í forsetatíð George H.W. Bush.

Talið er að með skipun Powells sé tryggt að bankinn haldi svipaðri línu og hann gerði undir stjórn Janet Yellen fráfarandi seðlabankastjóra. Í tíð Yellen studdi Powell hennar stefnu í öllum helstu aðgerðum bankans á undanförnum árum.

Hann hefur bæði varið neyðaraðgerðir bankans til þess að örva efnahaginn og að bankinn stundi svokallaða framsýna spá sem felst í því að bankinn gefur til kynna hverjar framtíðaraðgerðir hans verða. Þá hefur hann gefið til kynna að hann telji bankann eiga að halda sig við lága vexti eins lengi og þörf þykir en Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur kallað eftir því að vextir verði áfram lágir.

Skipun Powell markar ákveðin tímamót en nú í fyrsta skipti í fjóra áratugi fær sitjandi seðlabankastjóri ekki endurskipun af nýkjörnum forseta.