Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi nýjan sjónvarpsþátt á RÚV harðlega í umræðum um störf þingsins í dag. Umræddur þáttur er spurningaþáttur þar sem 10 milljónum er lofað þeim sem stendur uppi sem sigurvegari. Þátturinn var auglýstur á RÚV í gær, en fyrsti þátturinn verður sýndur 9. nóvember.

Ragnheiður benti á að Ríkisútvarpið fengi fjárframlög úr ríkissjóði. Ríkissjóði væri þröngar skorður settar og hvarvetna væri leitað leiða til að hagræða í ríkisrekstrinum. „Virðulegi forseti, ekki veit ég hvaðan þessir peningar eru komnir en ég veit að kostun er bönnuð,“ sagði Ragnheiður á þingi.

Hún spurði því hvort verið væri að veita þetta verðlaunafé af þeim framlögum sem RÚV fær úr ríkissjóði. „Ef þetta er með þessum hætti þá er það með ólíkindum. Á sama tíma og verið er að leita í öllum skúmaskotum eftir hverri krónu þá ætlar Ríkisútvarpið að fara fram með þessum hætti ,“ sagði Ragnheiður.