Hax er nýr skemmtistaður staðsettur við Hverfisgötu 20 þar sem Hverfisbarinn var áður til húsa. Jónas Óli Jónasson stendur fyrir opnun staðarins en hann hefur starfað sem plötusnúður síðastliðin ár undir nafninu DJ Jay-O. Jónas kom stuttlega að rekstri b5 en hann segir þó Hax vera frábrugðið b5 og með hugmyndafræði sem byggir á erlendum fyrirmyndum eins og skemmtistöðum í New York eða London.

Hann segir staðinn eingöngu vera hugsaður sem skemmtistaður en aðeins verður opið á föstudögum og laugardögum. „Fólk getur komið til að hlusta á góða tónlist, hitt skemmtilegt fólk og upplifað flotta klúbbastemmingu" segir Jónas.

Hingað til hefur tíðkast að það sé frítt inná skemmtistaði en Jónas segir að það sé kominn tími á endurskoðun í þeim málum. „Hiklaust, við sjáum ákveðin tækifæri í því að auka þjónustustigið hjá okkur og einn liður í því gæti verið að rukka aðgangseyri sem þekkist erlendis". Þá bindur Jónas vonir við að fyrsta Hax-kvöldi verði um miðjan eða lok ágúst.

Nánar er rætt við Jónas Óla um nýja skemmtistaðinn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.