Tækniskólinn sem tekur formlega til starfa 1. júlí vinnur nú að því að gera samning um kaupleigu á flughermi og mun sjá um þjálfun allra flugstjórnaráhafna fyrir Icelandair. Þá er fyrirhugað að festa kaup á skipi fyrir skipstjórnarnámið sem fram fer í skólanum.

Þetta kom fram í ræðu Baldurs Gíslasonar skólastjóra Iðnskólans á ráðgjafaráðsfundi Samtaka iðnaðarins fyrir helgi.

Fáránlegt að eiga ekki skip

Kostnaðurinn við flugherminn er hátt í einn milljarður króna. Í ræðu Baldurs kom fram að hann teldi þó ekki um áhættufjárfestingu að ræða þar sem samkomulag hafi verið gert við Icelandair um þjálfun áhafna flugfélagsins.

Þá skapist einnig tækifæri til að selja erlendum flugfélögum þjálfun fyrir áhafnir þeirra.

Áhætta væri hins vegar fólgin í skipakaupum. „En það er í raun fáránlegt að reka skipstjórnarskóla og hafa ekkert skip,“ sagði Baldur.

Innan Tækniskólans verða deildir nú skilgreindar sem skólar og skólastjóri stýrir hverjum skóla fyrir sig.

Um er að ræða 11 skóla sem munu byggja í meginþáttum á sama grunni og hingað til. Þeir eru Byggingartækniskólinn, Endurmenntunarskólinn, Fjölmenningarskólinn, Flugskóli Íslands, Hársnyrtiskólinn, Hönnunar- og handverksskólinn, Raftækniskólinn.