Stjórnir Rafmagnsveitna ríkisins (RARIK), Orkubús Vestfjarða hf. (OV) og Landsvirkjunar (LV) hafa ákveðið að stofna sameiginlegt sölufyrirtæki á raforkumarkaði. Í tilkynningu félaganna kemur fram að markmið með slíku fyrirtæki er að marka skýr skil milli einkaleyfis- og samkeppnisrekstrar hjá OV og RARIK en þau fyrirtæki reka einnig dreifiveitur auk raforkuframleiðslu.

Hið nýja fyrirtæki mun ráða yfir eigin framleiðslugetu auk þess sem það mun kaupa raforku í heildsölu frá framleiðendum. Það er mat RARIK, OV og LV að með tilkomu fyrirtækisins skapist öflugri valkostur á smásölumarkaði með raforku til hagsbóta fyrir neytendur. Eignarhlutir fyrirtækjanna í hinu nýja fyrirtæki skiptist þannig að RARIK og OV eiga 36% hvort og LV 28%.

Í upphafi síðasta árs hófu RARIK og OV sem bæði eru í 100% eigu ríkisins viðræður um að stofna sameiginlegt orkusölufyrirtæki og leggja því til framleiðslueiningar sínar. Var talið skynsamlegt að fyrirtækin tækju þetta skref í ljósi innleiðingar á samkeppni í raforkuframleiðslu og sölu, enda væri slíkt fyrirtæki betur í stakk búið til að takast á við samkeppnisumhverfið.

Með sjálfstæðu sameiginlegu orkusölufyrirtæki næst fram skýr fyrirtækjaaðgreining milli einkaleyfisþátta og samkeppnisþátta.

Þann 17. febrúar 2005 upplýsti iðnaðarráðherra að ríkið ráðgerði að sameina RARIK, OV og LV eftir að að hafa leyst til sín eignarhluta sveitarfélaganna í LV. Í kjölfarið var fyrirtækjunum falið að undirbúa hugsanlega sameiningu í eina fyrirtækjasamstæðu. Stofnun sameiginlegs orkusölufyrirtækis undir forystu RARIK og OV var þar m.a fyrirhuguð.

Unnið hefur verið að undirbúningi að stofnun sölufyrirtækisins með það að markmiði að það tæki til starfa í byrjun þessa árs þegar raforkusmásala verður að fullu frjáls.

Þrátt fyrir að viðræður eigenda LV um að ríkið leysi til sín eignahluta sveitarfélaganna hafi frestast hafa stjórnir fyrirtækjanna nú ákveðið að stofna slíkt orkusölufyrirtæki með aðkomu LV.

Ætlunin er að þetta sameiginlega orkusölufyrirtæki taki til starfa hið fyrsta og mun þá annast raforkusölu RARIK og OV.

Fyrirtækið mun eignast eftirfaldar aflstöðvar:

Frá RARIK: Rjúkandi, Skeiðfoss, Grímsá, Lagarfoss og Smyrlabjargavirkjun.

Frá OV: Mjólkárvirkjun, Þverárvirkjun, Rafstöðin Fossum, Reiðhjallavirkjun.

Frá LV: Laxárstöðvar.

Samtals er uppsett afl þessara stöðva um 53 MW og orkuvinnsla rúmar 300 GWh á ári.