Ljóst er að Jón Finnbogason, sem tók við starfi sparisjóðsstjóra Byrs fyrir áramót, á vandasamt verk fyrir höndum. Sjóðurinn hefur orðið fyrir miklum áföllum eftir bankahrun, bæði fjárhagslega og ímyndarlega en að sögn Jóns ríkir þó bjartsýni á meðal starfsmanna sem ætla sér að reisa sjóðinn við.

Byr hefur verið nokkuð í kastljósinu síðasta árið og nokkur umdeild mál tengd sjóðnum hafa skotið upp kollinum. Þar má meðal annars nefna umdeildar arðgreiðslur hálfu ári fyrir bankahrunið, í apríl kom upp mál er varðar Exeter Holdings og þá greindi Viðskiptablaðið frá því fyrir áramót að Glitnir hefði árið 2007 lánað börnum, meðal annars barni eins fyrrverandi stjórnarmanns í Byr, fyrir kaupum á auknu stofnfé í sjóðnum.

„Það er alveg ljóst að til þess að geta haldið áfram með sparisjóðinn þurfum við að vera tilbúin að takast á við fortíðina,“ segir Jón Finnbogason, sparisjóðsstjóri Byrs aðspurður um ímynd fyrirtækisins.

„Það þurfum við að gera með skipulögðum og öguðum vinnubrögðum og í réttri röð. Oft er þetta spurning um samspil dómgreindar og þolinmæði. Þarna þurfum við að láta það ganga í takt.“

Jón segir að vissulega hafi það frábæra vörumerki sem Byr hafi verið búið að skapa sér orðið fyrir ágjöf en engu að síður sýni kannanir að sjóðurinn njóti jákvæðrar ímyndar og sérstaklega ef ímynd er borin saman við helstu samkeppnisaðila fyrirtækisins.

„Okkar viðskiptamannahópur er mjög dreifður hópur einstaklinga og smærri og meðalstórra fyrirtækja. Þeir hafa sýnt tryggð við sparisjóðinn og fyrir það erum við þakklát. Vonandi sýna þeir okkur enn þolinmæði á meðan við leysum úr hinum ýmsu málum,“ segir Jón.

Nú sér fyrir lokin á fjárhagslegri endurskipulagningu á Byr en aðspurður um það hvort sjóðurinn lifi þá endurskipulagningu er svar Jóns stutt og einfalt, „Já!“

_____________________________

Nánar er er rætt við Jón í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .