Forráðamenn breska lúxusbílaframleiðandans Rolls-Royce hafa verið fámálir um næstu skref sín en eigi að síður eru flestir sérfræðingar þess fullvissir að næsti bíll sem birtist í verksmiðju Rolls-Royce í Goodwood verði harla óvenjulegur. Hann hefur vinnuheitið RR4 og mun verða næstur á eftir Phantom í barnaröðinni en líklegt er að sala hans hefjist árið 2010. Með öðrum orðum, hann verður talsvert minni en Phantombíllinn og því verður hann að teljast heldur óvenjulegt skref af hendi RR. Í undirvagninn verða notaðir breyttir íhlutir úr 7-línu BMW, þar á meðal drifrásin og hluti af rafkerfinu. Með þessu móti er hægt að stilla verði bílsins í hóf en hann er samt talinn munu kosta 175.000 pund, 25,3 milljónir króna, sem er 95.000 pundum lægra verð en á Phantom. RR4 verður með nýjum vélum og þótt Rolls-Royce hafi ekki gefið upplýsingar um þær er talið víst að í boði verði V8 vél með forþjöppu sem annað hvort byggist á tækni 6,75 lítra V12- vélarinnar sem er að finna í Phantom, eða 4,4 lítra V8-tvíforþjöppuvél BMW sem meðal annars verður að finna í X6. Ný framleiðslulína sett upp Nú þegar er hafin vinna við að setja upp framleiðslulínu í Goodwood og sem fyrr er það yfirhönnuður RR, Ian Cameron, sem stýrir ferlinu. Haft var eftir honum nýlega í breska dagblaðinu The Daly Telegraph að meiri áhersla yrði lögð á aksturseiginleika bílsins en annarra gerða Rolls-Royce og hugsa margir sér gott til glóðarinnar með að þarna fæðist lúxusbíll með verulega sportlega eiginleika. Stjórnarformaður Rolls-Royce, Ian Robertson, hefur einnig látið hafa eftir sér að bílnum sé ætlað að útvíkka vörumerkið og ná þannig til nýs kaupendahóps. Getgátur eru uppi um að RR4 verði jafnvel boðinn með dísilvél en að Rolls Royce bjóði upp á slíkt hefur verið talið óhugsandi til þessa.