Um þessar mundir hyggja ýmsir Íslendingar á stofnun nýrra fjárfestingasjóða, með því að fá lífeyrissjóði til að leggja með sér í sjóð. Í hópi þessara nýju fjárfestingasjóða er í smíðum nýr sprotasjóður, með vinnuheitið Silfra, sem verið er að safna í um þessar mundir.

Á Íslandi vantar fé til sprotafjárfestinga og fáir varanlegir fjárfestar á þessu klakstigi fyrirtækja starf hér, aðrir en Nýsköpunarsjóður. Sjóðurinn hefur þó ekki burði til að fjárfesta í öllum þeim hugmyndum sem hann telur vænlegar. Viðskiptablaðið fjallaði um þetta mál sem kom fram á ársfundi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fyrr í dag.

Orri Hauksson, fráfarandi stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs, sagði í ávarpi sínu á ársfundi sjóðsins í morgun, að  ýsköpunarsjóður ætti ekki að standa vaktina einn. Fleiri sprotasjóði vanti á markaðinn.

Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, sagði í erindi sínu á ársfundinum að Silfra, nýr sprotasjóður yrði rekinn samhliða Nýsköpunarsjóði og yrði nýr fjárfestingakostur fyrir lífeyrissjóða. Lífeyrissjóðirnir myndu hafa val milli þess að fjárfesta í Silfru eða öðrum nýjum sjóðum sem verið er að skapa um þessar mundir. Helga sagðist fagna komu nýrra sjóða á markaðinn, jafnvel ef tækist ekki að safna í Silfru.