Fjármálaráðherra hefur skipað starfshóp til að móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar og umbætur á skattkerfinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu en starfshópnum er ætlað að skila áfangaskýrslu til fjármálaráðherra eigi síðar en 15. júlí nk. með helstu stefnumarkandi tillögum og tillögum um þær lagabreytingar sem hægt verði að leggja fram til afgreiðslu á haustþingi 2010. Samkvæmt tilkynningunni skulu þær tillögur vera í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum og áætlanir um fjárlög fyrir árið 2011. Lokaskýrslu og heildartillögum skal skilað fyrir árslok 2010.

Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að Indriði H. Þorláksson, sem nýlega lét af störfum sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra til að sinna sérverkefnum innan ráðuneytisins mun starfa með hópnum.

„Vinna hópsins er í beinu framhaldi af þeim breytingum sem gerðar voru á skattalöggjöfinni í tengslum við fjárlög ársins 2010 á síðasta ári,“ segir í tilkynningunni.

„Þær voru miðaðar við að bæta afkomu ríkissjóðs í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, en um leið að dreifa skattbyrði með sanngjörnum hætti og hlífa tekjulágum við skattahækkunum.“

Starfshópinn skipa: Maríanna Jónasdóttir, fulltrúi fjármálaráðherra, sem jafnframt er formaður, Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, einnig tilnefndur af fjármálaráðherra, Hrannar B. Arnarsson, fulltrúi forsætisráðherra, Bolli Þór Bollason, fulltrúi félagsmálaráðherra, Arnar Þór Sveinsson, fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðherra og Hermann Sæmundsson, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Indriði H. Þorláksson mun sem fyrr segir starfa með hópnum.