Sigurður M. Harðarson hefur verið ráðinn sem stjórnunarráðgjafi hjá ParX. Sigurður er véltæknifræðingur frá Tækniháskólanum í Óðinsvéum. Hann starfaði síðast sem úttektarstjóri hjá Vottun hf., en var áður framkvæmdastjóri hjá OPM. Sigurður hefur starfað mikið erlendis og var hann meðal annars ráðgjafi hjá Midtjydsk Teknologi Center og Elsamprojekt.  Auk þess hefur hann framkvæmt yfir 700 úttektir á stjórnkerfum fyrirtækja í Danmörku, Noregi, Bretlandi, Hollandi, Þýskalandi og Póllandi.

Sérsvið Sigurðar er stjórnkerfi fyrirtækja, innri úttektir og vottun, auk stefnumótunar, breytingastjórnunar og skipulagsbreytingar.

Með ráðningu Sigurðar er ParX að koma á móts við þær síauknu væntingar sem lagðar eru á fyrirtæki að innleiða alþjóðleg stjórnkerfi á sviði gæða-, umhverfis-, öryggis-, og vinnuheilbrigðismála.

ParX Viðskiptaráðgjöf er rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtæki sem hefur á að skipa þriðja tug ráðgjafa með sérfræðimenntun á ýmsum sviðum og víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Ráðgjafar ParX greina aðstæður frá mörgum sjónarhornum og veita ráðgjöf á sviði fjármála, stjórnunar, stjórnsýslu, markaðsmála, mannauðs og upplýsingatækni.