Eva Cederbalk var kjörin formaður stjórnar Arion banka á stjórnarfundi mánudaginn 26. júní. Eva, sem var kjörin í stjórn bankans á hluthafafundi 23. júní, hefur mikla stjórnunarreynslu eftir að hafa starfað innan sænska fjármálakerfisins til margra ára. Þetta kemur fram í frétt frá Arion banka .

Eva er í dag forstjóri Cederbalk Consulting AB en starfaði áður m.a. sem forstjóri Netgiro Systems AB og framkvæmdastjóri Dial Försäkring AB. Hún er með meistaragráðu í hagfræði frá Stockholm School of Economics.

Stjórn Arion banka skipa nú: Eva Cederbalk formaður, Guðrún Johnsen varaformaður, Brynjólfur Bjarnason, Jakob Már Ásmundsson, John P. Madden, Kirstín Þ. Flygenring, Måns Höglund og Þóra Hallgrímsdóttir. Kirstín er fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórninni en aðrir eru tilnefndir af Kaupskilum.