Stefnt er að því að málefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar verði tilbúin á hádegi á morgun, föstudag. Búast má við að nýr ráðherralisti verði kynntur þann sama dag.

Tilvonandi ríkisstjórnarflokkar ræða það enn að fá fólk utan þings í nýja ríkisstjórn, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Nöfn Gylfa Magnússonar, prófessors við Háskóla Íslands, og Bryndísar Hlöðversdóttur, aðstoðarrektors Bifrastar, hafa verið nefnd í því sambandi.

Bryndís Hlöðvarsdóttir vísaði þessum orðrómi á bug í samtali við Viðskiptablaðið í kvöld og sagði að þetta hefði ekki verið orðað við sig. Hún hefði m.ö.o ekki verið beðin um að verða ráðherra í þessari ríkisstjórn.

Samkomulag um stjórnlagaþing

Samkomulag er um það milli forystu Samfylkingar og Vinstri grænna að efna til stjórnlagaþings. Það samkomulag er í samræmi við skilyrði Framsóknarflokksins fyrir því að verja stjórnina falli.

Framsóknarflokkurinn greindi frá því á sérstökum blaðamannafundi í dag að að hann vildi að kosningar til þess færu fram samhliða þingkosningum í vor. Hlutverk þess verði að vinna að nýrri stjórnarskrá Íslands.

Ekki hefur þó verið ákveðið hvenær kjósa á til stjórnlagaþings.

(Fréttin var uppfærð kl. 18.37).