Fjarskiptafélagið Hibernia Atlantic, í eigu CVC Iceland Holding ehf., hefur ákveðið að ráðast í lagningu sæstrengs sem tengir Ísland við ljósleiðarakerfi félagsins í Norður-Atlantshafinu en félagið rekur ljósleiðara bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta var samþykkt í stjórn félagsins síðdegis í gær og er gert ráð fyrir að sæstrengurinn verði komin í fulla notkun haustið 2008. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Hibernia Atlantic hyggst leggja nýja strenginn á milli Íslands og beint í nyrðri streng félagsins sem liggur frá Kanada til Bretlands og gefur Íslandi þannig beina tengingu við þær 42 borgir sem Hibernia hefur byggt ljósleiðaranet til, þar á meðal NYC, Dublin, London og Amsterdam en í þessum borgum eru bestu tengingarnar við helstu fyrirtæki sem byggja upp internet heimsins eins og við þekkjum það.

Kostnaður vegna verkefnisins fæst ekki gefin upp að svo stöddu en gera má ráð fyrir að strengurinn kosti nokkra milljarða króna. Burðargeta hins nýja strengs verður mjög mikil eða 192 X 10 Gbps.

Að sögn Ken Peterson, stjórnarformanns  Hibernia Atlantic, er ljóst að margir viðskiptavina félagsins horfa nú til Íslands með það fyrir augum að skoða möguleika á uppsetningu netþjónabúa en rekstur þeirra er mjög orkufrekur. Haft er eftir Peterson í tilkynningu félagsins að það sé ákaflega freistandi að tengjast þannig íslenskum orkumarkaði sem hafi upp á mikla umhverfisvæna orku að bjóða. Að sögn Bjarna K. Þorvarðarsonar, forstjóra Hibernia Atlantic, verður það til að styrkja samkeppnisstöðu Íslands, þegar kemur að því að þjónusta netþjónafyrirtæki, að tveir ótengdir aðilar bjóði upp á tengingu til landsins.

Ekki er langt síðan greint var frá því að starfshópur á vegum samgönguráðherra hefði lagt til að ríkið og aðrir hluthafar í Farice hf. hefji viðræður um fjármögnun og rekstrarfyrirkomulag á nýjum sæstreng sem tengir Ísland við Evrópu. Hópurinn lagði til í áliti sínu, sem lagt var fram rétt fyrir jól, að kannaður yrði áhugi annarra íslenskra aðila og stefnt skuli að því að ljúka lagningu nýs sæstrengs haustið 2008. Nú virðist þetta ætla að verða að veruleika fyrir tilstyrk Hibernia Atlantic.

Fjarskiptasamband við útlönd fer í dag um tvo sæstrengi, Cantat 3 og Farice. Sá fyrrnefndi hefur oft verið í fréttum vegna bilunar. Að flestra mati hefur vandinn við sambandið til Íslands falist í vöntun á varastreng fremur en bandbreidd. Með tilkomu netþjónafyrirtækja breytist sú mynd hins vegar fljótt þar sem Cantat 3 gæti ekki dugað til að mæta bandbreiddarþörf slíkra fyrirtækja. Nýr strengur Hibernia Atlantic bætir þar úr.