Einar Eyland hefur tekið við starfi svæðisstjóra Eimskips á Norðurlandi með aðstöðu á Akureyri, segir í fréttatilkynningu.

Einar tekur við af Helga Pálssyni sem lét af störfum hjá Eimskip í apríl. Sem svæðisstjóri er Einar ábyrgur fyrir almennum rekstri á svæðinu auk þess að halda utan um sölu- og markaðsmál

Einar var sölu- og markaðsstjóri hjá Samherja hf. og tengdum fyrirtækjum frá 1990 þar til í lok janúar sl. eða í tæp 16 ár. Þar áður var hann framleiðslustjóri hjá Álafoss frá 1989-90 og hjá Iðnaðardeild Sambandsins á Akureyri 1984-1989.

Einar tók landspróf frá Gagnfræðaskóla Akureyrar og sveinspróf í vélvirkjun frá Iðnskólanum á Akureyri. Hann lauk prófi í ullarframleiðslufræði frá Huddersfield Polytechnic School árið 1984.

Í tilkynningu frá Eimskip segir að frá og með 1. maí tók gildi nýtt fyrirkomulag á svæðisskrifstofum Eimskips á Íslandi. Samkvæmt nýja fyrirkomulaginu er landinu skipt í 4 svæði: Suðvesturland, Vestfirði, Norðurland og Austurland og heyra yfirmenn á hverju svæði beint undir framkvæmdastjóra innanlandssviðs Eimskips.

Markmið með breytingunum er fyrst og fremst að stytta boðleiðir og efla tengsl við viðskiptavini.