*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 4. febrúar 2018 10:02

Nýr tengipunktur yfir hafið

Með samningi Icelandair við ríkisflugfélagið á Grænhöfðaeyjum um uppbyggingu á leiðarkerfinu fylgir kaupréttur.

Höskuldur Marselíusarson
Aðsend mynd

Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, undirrituðu í ágúst samning við ríkisflugfélagið á Grænhöfðaeyjum (TACV) um uppbyggingu á leiðarkerfinu að íslenskri fyrirmynd. Með samningnum fylgir kaupréttur á meirihluta í félaginu.

Erlendur Svavarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Loftleiðum, segir að með samningnum vilji yfirvöld á Grænhöfðaeyjum nýta yfir 80 ára reynslu Icelandair við að byggja upp tengimiðstöð fyrir flug yfir Atlantshafið. 

Samningurinn byggir á mánaðarlegum greiðslum til Loftleiða fyrir ráðgjöf og starfsmenn lánaða í lykilstöður hjá TACV, sem erlendir fjölmiðlar segja að hljóði upp á sem samsvarar um 112 til 117 milljónum króna fyrir árið. Verði flugfélagið síðan einkavætt eins og ríkisstjórnin stefnir að hefur Icelandair forkaupsrétt á að kaupa allt að 51% eignarhlut í félaginu. 

„Þegar ríkisstjórn Grænhöfðaeyja verður búin að ákveða með hvaða hætti hún selur fyrirtækið og við sjáum í hvaða ástandi það verður á þeim tíma, þá getum við skoðað hvort og þá með hvaða hætti við höfum áhuga á að nýta þennan rétt,“ segir Erlendur. 

„Eins og staðan er núna er þetta fyrst og fremst samningur um þessa þjónustu annars vegar og hins vegar leigusamningar um flugvélar. Við leigðum til þeirra tvær flugvélar núna yfir vetrartímann, sem voru í rekstri Icelandair síðasta sumar og fara væntanlega aftur í rekstur til Icelandair næsta sumar.“

Vonast eftir uppbyggingu ferðamannaiðnaðar í kringum flugið

Erlendur segir flugvélarnar tvær vera í litum Icelandair en talað er um það í fjölmiðlum Grænhöfðaeyja að stefnt sé að því að leigja fjórar flugvélar frá Icelandair sem munu fljúga til Bandaríkjanna, Bretlands og Portúgal.

„Hluti af samningnum er að við gerðum áætlun til fimm ára sem okkar hlutverk er að hrinda í framkvæmd,“ segir Erlendur. „Grunnhugmyndin á bak við þá áætlun er að setja upp leiðarkerfi á Grænhöfðaeyjum sem er á margan hátt svipað því sem við þekkjum hérna frá Keflavík.“ Hann segir að stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum vonast eftir því að ferðamannaiðnaðurinn geti byggst upp í kringum flugið líkt og hér á landi. 

„Það sem er þó öðruvísi er að þarna er um tvo ása en ekki einn að ræða, það er að vegna landfræðilegrar legu Grænhöfðaeyja undan vesturströnd Afríku er ætlunin að tengja saman vesturhluta Afríku og Norður-Ameríku, Evrópu og Suður-Ameríku. Frá eyjunum er ekki nema fjögurra klukkustunda flug til norðurhluta Brasilíu og svo aftur til Lissabon er rétt um fjórir klukkutímar líka.“ 

Vantaði samstillingu flugferða 

Erlendur segir að þótt félagið hafi flogið til Brasilíu, Bandaríkjanna, Miðbaugs Gíneu og Portúgals og Amsterdam sem dæmi, þá hafi leiðarkerfið ekki verið hannað með það fyrir augum að fólk gæti ferðast viðstöðulaust milli heimsálfanna. 

„Leiðarkerfið var ekki stillt af þannig líkt og í Keflavík að fólk gæti notað Grænhöfðaeyjar sem miðpunkt fyrir áframhaldandi ferðalag. Heldur þurfti fólk kannski að bíða í heilan dag á milli ferða eða meira, svo fólk var frekar í því að ferðast fram og til baka á milli landsins og annarra landa,“ segir Erlendur. Hann segir að með þessu sé þó ekki verið að vega að flugi yfir hafið í gegnum Ísland. 

„Við erum með þessu að vissulega að setja upp annan tengipunkt fyrir flug yfir Atlantshafið, sem við auðvitað erum að fá tekjur af í gegnum þennan samning. En þetta er ekki hugsað sem hluti af kjarnastarfsemi Icelandair, né heldur sem samkeppni sem væri að éta upp okkar eigin innviði. Út frá Keflavík ertu ekki að fara að tengja Nígeríu við Washington eða fara með farþega frá Stuttgart til Brasilíu. Þvert á móti nýtist þetta okkur algerlega sem viðbótarviðskipti.“

Klukkustundar flug frá Tenerife

Erlendur Svavarsson hefur sjálfur farið nokkrum sinnum til Grænhöfðaeyja í tengslum við gerð samninganna en hann segir veðráttuna á svæðinu vera svipaða og í Tenerife á Kanaríeyjum sem er einungis í klukkutíma fjarlægð með flugi. 

„Það hefur verið gaman að fylgjast með uppbyggingunni sem á sér stað þarna niður frá. Hilton er að opna tvö hótel og með stærri aðilum frá Makaó er að setja upp spilavíti,“ segir Erlendur sem er bjartsýnn fyrir hönd íbúanna sem eru rétt um 600 þúsund manns. 

„Vonandi tekst okkur að hjálpa þeim að koma flugfélaginu vel af stað og þar með ferðamennskunni. Kannski getum við einhvern tíman boðið upp á leiguflug þangað fyrir sólþyrsta Íslendinga. Við höfum verið að vinna með Íslensku auglýsingastofunni við að búa til nýtt markaðsefni og hafa starfsmenn þeirra farið niður eftir og hrifist mjög af því hvað samfélagið er litríkt og skemmtilegt, hvað það er mikil menning, tónlist og góður matur, en þarna er mjög heillandi kreóla kúltúr.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.